9.12.10

Gamla Melahúsið - 8


Þegar ég sá allar fallegu myndirnar hennar Lilju á Melum á Feisbókinni hennar Signýjar áðan ákvað ég að fresta frekari þrifum á eldhúsinu en ljúka þess í stað ferð minni um gamla húsið okkar á Melum. Ég gerðist svo djörf að stela einni mynd, af Sigga, Lilju, Nonna og Signýju með umrætt hús í baksýn og birta hér.

Það var bara eitt herbergi eftir, suðríherbergi eins og það var kallað, en það var í suðausturhorni hússins, inn af stofunni. (Takið eftir þessari markvissu og skemmtilegu áttanotkun okkar Melamanna.)

Þegar ég man fyrst eftir var þetta herbergi bræðra minna. Pabbi og mamma sváfu með okkur stelpunum í herberginu norðurí (í norðvesturhorninu). Seinna gerðu pabbi og mamma herbergið að sínu (þegar pabbi fjárfesti í svefnherbergissettinu sem áður hefur verið minnst á) og Didda var inni hjá þeim fyrstu árin. Ég held að Gústi hafi þá flutt í stofuna (svefnsófann). Himmi var þá nokkurn veginn alveg farinn að heiman.

Eitt var sérstakt við suðríherbergið. Þar var innbyggður skápur, ekki stór, tvískiptur með tveimur hurðum, hangandi föt öðrum megin og svo hillur fyrir samanbrotið hinum megin. Ég man þegar efsta hillan þar fór allt í einu að fyllast af litlum flónelstreyjum og smábarnasængurfötum. Þá gekk mamma með Diddu en minntist ekki á það einu orði við okkur allan tímann!

Fyrir utan litla skápinn á ganginum var þetta eini fataskápur fjölskyldunnar. Það er mér eiginlega hulin ráðgáta, en einhvern veginn komust fötin okkar þarna fyrir. Samt var alltaf verið að sauma kjóla á kvenþjóðina. Á móti kom að pabbi átti ekki mörg sett af sparifötum - ég man eftir einum brúnum sem hann átti býsna lengi. Og eina spariskó lét hann sömuleiðis duga mörg ár. Þá kallaði hann alltaf "blankskó" (ekki með á-framburði á a-inu) hann sagði líka "tankur" með sama framburði. Það var eina vestfirskan okkar, ef það var það þá.


Fyrir ofan fataskápinn voru efri hólf sem náðu upp í loft og þar voru geymdar miklar gersemar. Fyrst ber að nefna jólaskrautið (líklega þess vegna sem ég geymi mitt jólaskraut í efri skáp í svefnherberginu); skrautið á jólatréð, serían (sem entist ótrúlega lengi) og allt loftskrautið (sem ég hef lofsungið áður). Þarna voru líka geymd fallegustu jólakortin sem við höfðum fengið, t.d. þetta svarta með gylltu og hvítu englunum sem amma sendi mér einni af því ég var svo dugleg að hjálpa henni þegar hún var hjá okkur þá um sumarið. Þarna var líka gamalt dót sem mamma átti, t.d. myndir frá því hún var í Reykjaskóla, saumamynsturbækur og nokkur hefti af tímaritinu "Stjörnur" sem mér fannst mjög gaman að glugga í. Þetta ágæta tímarit hef ég hvergi rekist á annars staðar og er til efs að eintök séu til af því á Landsbókasafni. Það væri gaman að gá hvort Bragi á eitthvað af því.

Ég var svo lítil þegar strákarnir höfðu herbergið að minningin um það er óljós. Þó man ég eftir skrifborði, gömlu og lúnu. Býst við að það hafi verið keypt á uppboði, nema það hafi verið úr búi afa og ömmu. Skrifborðið var fullt af gömlum bókum, sumum dálítið brunnum á jöðrunum eftir smábruna sem varð víst einhvern tíma í gamla bænum á Melum, líklega í tíð langafa, er þó ekki alveg viss. Svo man ég eftir dívani sem Gústi svaf á og einstöku sinnum fékk ég að sofa hjá honum. Man í eitt skiptið að Gústi spurði mig: "Finnst þér gott að hafa hátt undir hausnum?" Mér fannst það ágætt en þorði ekki annað en segja að mér þætti það alls ekki gott því Gústi hafði verið svolítið tregur til að leyfa mér að sofa inni hjá sér. "Mér finnst það gott. Þá fæ ég koddann þinn," sagði Gústi, og ég svaf koddalaus þá nótt, og kannski fleiri.

Kannski var það þá sem Gústi leiddi mig í sannleikann um það hvor væri merkilegri kall, Kennedy eða Krústsjoff. Fram að því hafði Kennedy verið minn maður, aðallega fyrir Jackie og börnin, en Gústi fullyrti að Krússi væri miklu máttugri, hann gæti til dæmis kveikt tvisvar sinnum á sömu eldspýtunni! Það hafði reynst mér ómögulegt, hvað sem ég reyndi, kannski fyrir áeggjan Gústa, svo að ég lét sannfærast. Krústsjoff var örugglega meiri maður en Kennedy.

Læt ég þá hringsóli mínu um gamla Melahúsið lokið.

Web Counter

11.2.10

Sumir en flestir ekki

Af hverju geta sumir stofnað félög um sig í smáatriðum, húsaskjólið, matinn, fatnaðinn, tómstundirnar, en flestir ekki? Skyldi það vera vegna þess að þá væru engir eftir til að borga þegar félögin eru farin á hausinn? Það lýsir þó nokkurri fyrirhyggju.

Web Counter

26.1.10

Hvenær á maður kvóta ?

Á Útvarpi Sögu meðan ég hljóp í dag var einhver gaur að jagast um kvótakerfið. Hann á ekki kvóta, sagði hann, heldur bara félag með konunni sinni, sem á kvóta, og hann er í vinnu hjá félaginu við að veiða þennan kvóta og fær 220 þús. á mánuði (það er þetta algera lágmark sem er gert ráð fyrir að einyrkjar reikni sér sem reiknað endurgjald), og lifir góðu lífi á tvöhundruðkallinum, sagði hann! Svo leigir hann, nei fyrirgefið, félagið, reyndar út einhverja kvótalús líka.

Þessi ekki-kvótaeigandi er auðvitað alveg á móti því að hróflað sé við kerfinu. Þegar honum var bent á að útgerðarfyrirtæki nokkurt hérlendis gæti borgað útlendingum 65 kr. fyrir kg. af fiski sem væri veiddur einhvers staðar langt í burtu í lögsögu annars ríkis sagði hann að það væri augljós skýring á því, við þær veiðar væru eintómir útlendingar sem fengju ekki borgað nema einhverja lágmarkstryggingu og smáhungurlús í viðbót, svo kostnaður væri sáralítill. Þáttastjórnendadruslurnar föttuðu auðvitað ekki að spyrja hann hvort þau laun væru nokkuð verri en tvöhundruðkallinn sem félagið hans rausnaðist til að borga honum.

Hvað ætli þessi gaur og félagið hans greiði annars til samfélagsins, þegar líka er búið að draga frá sjómannaafsláttinn?

Web Counter

8.1.10

Gamli og nafni

Það munaði ekki miklu á nöfnum þeirra föður míns, Jóns, og föðurbróður, Jónasar. Ég veit ekki hvort það var þess vegna, en yfirleitt ávörpuðu þeir hvor annan "gamli" svona dagsdaglega. (Kannski hafa þeir notað eitthvað kröftugra í orðasennum.) Jónas var auðvitað í meiri rétti, rúmlega ári yngri, en samt svaraði pabbi alltaf í sömu mynt. Mér fannst fyndið að komast að því seinna að í fyrndinni bjó maður á Melum sem hét þessu nafni, ef eitthvað er að marka Grettis sögu.

Það var ekki nóg með að þeir deildu með sér þessu "gælunafni" heldur áttu þeir sér sameiginlegan nafna, Jónas kaupfélagsstjóra. Þar var Jónas augljóslega í meiri rétti sem fyrr, en mér skilst að "réttur" pabba hafi byggst á því að þegar þeir voru strákar, hann og kaupfélagsstjórinn sem síðar varð, voru þeir báðir kallaðir Jonni. Sönnun á Jonna-nafni pabba er áritun á bókinni Seytján ævintýri sem lengi var til heima: Til Jonna á jólunum ... - því miður man ég ekki ártalið.

Og í lokin - lík nöfn systkina: Dætur mínar eru kallaðar Stína og Steina. Frændi þeirra, fróður um nöfn og málfræði, spyr oft þegar hann hringir hingað og önnur hvor þeirra svarar: "Hvort er þetta í eða ei?"

Web Counter

6.1.10

Verktaka og vetrarörorka

Á hverjum einasta degi kemur í útvarp/sjónvarp eða lætur boð ganga þangað alveg óskaplega sár og svekktur verktaki. Alvöru verktaki, með fullt af dýrum vélum, mönnum og jafnvel húsum sem ekki er lengur, eða var kannski aldrei, þörf fyrir. hann er líka bullandi skuldugur, og heimtar að hið opinbera fari í framkvæmdir svo hann fái eitthvað að gera. Svona hefur þetta verið hér áratugum saman hér. Flest sem hér er ráðist í er metið út frá því hversu margir (karl)menn, og ekki síður vélar, fá vinnu við það. Hátæknisjúkrahúsið er aðallega sniðugt af því að (karl)menn fá vinnu við að byggja það. Hvernig svo á að vera hægt að reka það frekar en lágtæknispítalann sem við verðum að sætta okkur við nún veit enginn.

Þegar ég var að alast upp norður í Hrútafirði fór þar fram gríðarleg verktaka í nokkrar vikur á hverju sumri - vegavinna. Nokkurn veginn annar hver maður í sveitinni, beggja megin fjarðar, átti vörubíl (yfirleitt druslu) og þessi floti var í stöðugum ferðum um nokkurra vikna skeið upp og niður Holtavörðuheiði og inn og út sveitina með möl sem var sturtað á veginn og nokkrir sveitungar þeirra sem áttu ýtur sáu um að dreifa úr. Svo sá umferðin sem fór um þennan sama veg um að róta mölinni burt þannig að næsta vor var hún öll farin, komin drulla og holur, og þá gat leikurinn hafist á ný.

Það voru eins konar trúarbrögð að á Íslandi yrði aldrei hægt að leggja varanlega vegi en ætli grundvöllur þeirra trúarbragða hafi ekki verið sú "atvinnusköpun" sem fólst í helvítis malaraustrinum. Og víst er það að sumir bílstjórarnir létu þessi sumaruppgrip nokkurn veginn duga til að framfleyta sér - kannski með smáhjálp frá héraðslækninum sem skrifaði upp á nokkurra mánaða vetrarörorku.

Hefur þetta annars eitthvað breyst - svona í grundvallaratriðum?

Web Counter

8.11.09

Pelargóníur


Ég fékk pelargóníuæði í sumar, sem er eiginlega ekki runnið af mér enn. Ég kom mér upp fjórum sortum eða afbrigðum og vona að ég geti fjölgað þeim í sumar. Nú er safnið: ein klassísk rauð, laxableik, stór og blómviljug, ljósbleik með smærri blómum og fínlegri og loks ein með hvítum blómum, frekar litlum með litlum rauðum röndum eða dílum, vex dálítið til hliðanna og niður, líklega einhvers konar hengiafbrigði. Blöðin stíf og dálítið vaxkennd. Það voru áform um að klippa þessar elskur niður þegar haustaði en þær hafa bara verið svo fallegar og duglegar að blómstra að ég hef ekki tímt því enn. Planið er hins vegar að taka fullt af afleggjurum og vera tilbúin með fullt af nýjum blómum til að skella út á svalir í vor.

Mér er sagt að það sé soldið kellingalegt að hrífast af pelargóníum og það passar mér vel. Ég hugsa líka að það sé leitun að blómi sem er eins lítið 2007, og ekki er það verra

Web Counter

29.10.09

Dæmi um heklaðan þjark




Bandarískur drengur með þjarkinn sinn, myndin er úr The Great Granny Crochet Book", gefin út 1979 af American School of Needlework

Web Counter

Þrælahald eða hvað?

Ég er mikil föndurkona, eins og komið hefur fram nokrum sinnum í þessum pistlum sem gerast nú æ strjálli, en það er önnur saga. Ég heklaði á útmánuðum ljómandi fallega körfu úr hvítu bómullargarni. Til að gera hana stífa vætti ég hana í veggfóðurslímsgraut og lét hana þorna í nokkra daga á einum af pottunum mínum. Ég ætla ekki að lýsa verkferlunum við gerð körfunnar nánar en nú prýðir hún borðið á nýja baðinu uppi. Garnið í hana átti ég, en ég þurfti að leggja út hátt í 2000 kr. fyrir veggfóðurslíminu (á reyndar nóg eftir í svo sem 20 körfur).

Svo gerist það í dag að inn um lúguna kemur ruslpóstur úr Rúmfatalagernum og þar á baksíðunni, með jóladóti, er mynd af ÞREMUR hekluðum körfum í setti, öllum MEÐ LOKI, á 1400 kr. Ég tók andköf meðan ég reyndi að ímynda mér í hvers lags þrælabúðum þessar körfur væru gerðar, handunnar að sjálfsögðu, eða hvað? Ég fór og gúglaði "crochet machine" (hekluvél). Og viti menn! Það ruddust upp á skjáinn upplýsingar um alls kyns hekluvélar til sölu; og virtust margar vera upprunnar í Kína (þeir eru mikið fyrir hekl, Kínverjar, hver man ekki dúllurnar á sófasettinu sem allir erlendir þjóðhöfðingjar voru látnir setjast í?)

Það eru því ekki þrælar með eina heklunál í krepptum höndum sem búa til allar þessar hekluðu körfur, heldur þrælar sem standa við hekluvélar. Svona til að vera viss um að mannshöndin væri þarna einhvers staðar nærri gúglaði ég líka "crochet robot" sem samkvæmt íðorðanefndunum útleggst "hekluþjarkur" en fann eintóma heklaða þjarka (crocheted robots), misfagra og -krúttlega.

Ekkert fannst um hver það var sem fann fyrst upp svona vél og væri vitneskja um það vel þegin.

Web Counter